I. kafli
Heiti félagsins, heimili og hlutverk
- Félagið heitir Skátafélagið Vífill. Heimili þess og starfssvæði er í Garðabæ.
- Félagið er fullgildur aðili að Bandalagi íslenskra skáta (BÍS) og starfar innan vébanda þess.
- Markmið félagsins er það sama og fram kemur í lögum BÍS, 1. kafla, 2. og 3. grein. Félagið starfar eftir þeim meginreglum, sem stofnandi skátahreyfingarinnar Baden Powell, setti skátastarfi í skátaheiti og lögum.
II. kafli
Félagsmenn
4. Í félaginu starfa skátar á öllum aldri. Einnig er heimilt að stofna sveitir sérskáta, s.s. sjóskáta og radíóskáta, sem starfa innan félagsins.
5. Til að ganga í félagið þarf viðkomandi:
a. að vera á 4. ári eða eldri
b. að fá leyfi foreldra eða forráðamanna, sé viðkomandi undir lögaldri.
Hver og einn telst félagi sem hefur greitt ársgjald til félagsins og þegar félagsstjórn hefur samþykkt inntöku hans. Segi einhver sig úr félaginu, skal tilkynna það sveitarforingja eða félagsstjórn.
6. Félagar skulu taka virkan þátt í skátastarfinu. Veruleg forföll og brot á almennu velsæmi að mati sveitarforingja og stjórnar félagsins getur valdið brottvikningu úr félaginu.
7. Skátinn greiðir félagsgjald, en upphæð þess hverju sinni ákvarðast af stjórn félagsins.
8. Hver sem gerist skáti skal vinna skátaheitið, skilja skátalögin og starfa undir kjörorðinu „Ávallt viðbúinn“.
III. kafli
Aðalfundur
9. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda í febrúar ár hvert. Til hans skal boða alla skáta í félaginu 16 ára og eldri. Fundurinn skal boðaður með að minnsta kosti 20 daga fyrirvara. Minnst 3 dögum fyrir aðalfund skal senda skýrslu stjórnar, endurskoðaðan ársreikning, allar tillögur og öll framboð er hafa borist á boðaða félaga. Ef aðalfundur er löglega boðaður telst hann lögmætur.
10. Kosningarétt á aðalfundi hafa aðeins starfandi skátar í félaginu, 16 ára og eldri. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála nema annars sé getið í lögum þessum. Stjórn BÍS og bæjarstjórn Garðabæjar er heimilt að senda áheyrnarfulltrúa.
11. Dagskrá aðalfundar skal vera þessi:
a. Fundur settur.
b. Kosning fundarstjóra og ritara. Þeir skulu ekki vera úr röðum stjórnarmanna.
c. Athugað kjörgengi fundarmanna og lögmæti fundar kannað.
d. Skýrsla stjórnar.
e. Lagðir fram til samþykkis endurskoðaðir reikningar félagsins.
f. Lagabreytingar.
g. Kosning stjórnar.
h. Kosning skoðunarmanns reikninga.
i. Starfsáætlun nýbyrjaðs árs kynnt.
j. Fjárhagsáætlun ársins kynnt.
k. Önnur mál.
l. Fundi slitið.
12. Reikningsár félagsins skal miðast við almanaksárið.
IV. Kafli
Stjórn félagsins, félagsráð, foringjaráð og fastanefndir
Stjórn félagsins skipa 7 manns, félagsforingi, dagskrárforingi, sjálfboðaliðaforingi, gjaldkeri, ritari og 2 meðstjórnendur. Kosning allra í stjórninni er til tveggja ára. Félagsforingja skal kjósa sérstaklega. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Hætti einhver í stjórninni á meðan kjörtímabili stendur skal stjórnin skipa annan í staðinn.
13. Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins milli aðalfunda með þeim takmörkum sem lög þessi setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjármálum þess. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift félagsforingja og gjaldkera nægileg til þess. Til meiriháttar ákvarðana þarf samþykki meirihluta stjórnar.
14. Verkefni stjórnar félagsins eru m.a.:
–Sjá um stefnumótun og áætlanagerð félagsins (til lengri og skemmri tíma), sérstaklega hvað varðar viðburði á vegum félagsins, mannauð, fjárreiður, uppbyggingu húsnæðis og aðstöðu og félagafjölda.
–Annast upplýsingagjöf, samskipti og samstarf við:
a. Bandalag íslenskra skáta
b. Bæjarstjórn Garðabæjar og stofnanir bæjarins
c. Ýmis félagasamtök í sveitarfélaginu.
d. Foreldra
e. Almenning
–Veita félagsmönnum og verkefnahópum upplýsingar sem varða störf þeirra.
–Standa fyrir viðburðum og þjónustuverkefnum í sveitarfélaginu.
–Halda skrá um skráða félaga, fyrrverandi og núverandi.
–Halda skrá um þær viðurkenningar sem félögum hlotnast.
–Annast innheimtur félagsgjalda.
–Annast viðhald og betrumbætur húsnæðis og annarra eigna félagsins: Skátaheimili, skátaskáli, viðlegubúnaður, leiktæki, verkfæri, áhöld, tæki, skrifstofubúnaður, húsgögn, viðurkenningar og skátaminjar.
–Annast ráðningu starfsmanna/starfsmanns, foringja, verkefnastjóra og verkefnahópa og veita þeim erindisbréf.
–Skipuleggja foringjaþjálfun félagsins.
-Veita foringjum félagsins aðhald og hvatningu í starfi.
Félagsstjórn getur falið starfsmönnum, verkefnastjórum og verkefnahópum að sjá um eitt eða fleiri ofangreindra verkefna.
15. Stjórnarfundi skal halda reglulega og boða með tryggilegum hætti með a.m.k. eins dags fyrirvara. Formenn fastanefnda skulu boðaðir á stjórnarfundi. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef a.m.k. fjórir stjórnarmenn mæta. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Gerðir stjórnar skulu bókfærðar.
16. Í félaginu skal starfa félagsráð. Félagsráð er samstarfsvettvangur félagsstjórnar og foringjaráðs. Félagsráð fundar a.m.k. tvisvar á ári að hausti og í byrjun árs. Félagsráð kýs fulltrúa í fastanefndir félagsins (sjá lið nr. 19) og mótar starfsáætlun félagsins. Félagsstjórn boðar til félagsráðsfunda.
17. Í félaginu skal starfa foringjaráð og ber félagsstjórn ábyrgð á störfum þess. Sæti í því eiga allir sveitarforingjar og aðstoðarsveitarforingjar. Foringjaráð heldur fundi að jafnaði einu sinni í mánuði og skal farið eftir almennum fundarsköpum á fundum þessum. Dagskrár- og/eða sjálfboðaliðaforingi stýrir störfum foringjaráðs.
18. Verkefni foringjaráðsins er að skipuleggja og samræma sameiginlegt starf sveita, fjalla um foringjaþjálfun og ræða starf félagsins. Stjórn félagsins ber að taka tillit til meirihluta samþykkta foringjaráðsfunda.
19. Við félagið starfa 4 fastanefndir:
a. Húsfélag. Sameiginleg nefnd Vífils og HSG um rekstur Jötunheima. Vífill og HSG setja sér sameiginlegar reglur um skipulag og verkefni nefndarinnar.
b. Húsnefnd. Sér um viðhald og eignir Vífils, þar með talið Jötunheima í samráði við húsfélagið.
c. Skálanefnd. Sér um Vífilsbúð skála félagsins
d. Fræðslu og kynningarráð. Nefndin annast kynningu á félaginu út á við ásamt útgáfumálum. Sér um fræðslu til foringja, foreldra og annarra.
Félagsstjórn ákvarðar nánar um verkefni þessara nefnda.
V. Kafli
Ýmis ákvæði
20. Hætti félagið störfum skulu eignir þess fara í umsjón bæjarstjóra Garðabæjar og skulu þær ávaxtaðar eins og best verður á kosið í 10 ár. Hefji félagið eða viðurkenndur arftaki þess aftur starf innan þess tíma tekur félagið við eignunum aftur. Að öðrum kosti ráðstafar Bæjarstjórn Garðabæjar eignum þessum í samráði við þrjá síðustu félagsforingja félagsins og stjórn BÍS.
21. Stjórn félagsins ber ábyrgð á framkvæmdum þessara laga.
22. Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi félagsins Tillögur til lagabreytinga skal afhenda stjórn félagsins eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund. Nái tillaga til lagabreytingar samþykki 2/3 hluti fundarmanna tekur hún gildi eftir aðalfund.
23. Lög þessi taka þegar gildi.
Garðabær 26. febrúar 2024
Fh. stjórnar, Urður Björg Gísladóttir félagsforingi