Skátafélagið Vífill

16 – 18 ára

Skátar á aldrinum 16-18 ára nefnast rekkaskátar

Rekkaskátum býðst fjöldi nýrra tækifæra í eigin starfi og þeir byrja að spreyta sig á hinum ýmsu ábyrgðarhlutverkum innan skátahreyfingarinnar. Rekkaskátar starfa gjarnan saman þvert á skátafélög og byrja þar að auki í auknum mæli að starfa með róverskátum (19 – 25 ára). Rekkaskátum býðst að taka þátt í ýmsum spennandi viðburðum bæði innanlands og utan og byrja rekkaskátar því gjarnan að mynda tengsl við aðra skáta þvert yfir hnöttinn. 

Á rekkaskátaaldri byrja flestir að sinna foringjastörfum eða öðrum hlutverkum innan skátafélaganna og því er boðið upp á fjölda námskeiða í leiðtogaþjálfun. Það er gífurlega reynslu að sækja í rekkaskátastarfið, reynslu sem mun nýtast við leik og launuð störf um ókomna tíð. Í rekkaskátastarfinu eru möguleikarnir jafn margir og þeir eru ólíkir og reynslan sem hver skáti öðlast því bundin áhugasviði, áherslum og iðkun hvers og eins Í rekkaskátastarfinu eru tækifærin endalaus, félagsskapurinn er frábær og starfið er ekki bara styrkjandi og skemmtilegt heldur kemur það líka sífellt á óvart.

Rekkaskátar hittast reglulega yfir starfsárið. Yngri aldursbil vinna í svokölluðum skátaflokkum þar sem 5 – 8 skátar mynda skátaflokk og starfa saman að flestu yfir starfsárið. Í rekkaskátum er hópskiptingin ekki jafn formföst, rekkaskátar taka sig saman um þá dagskrá sem þau hafa áhuga á og starfa því jafnvel í mörgum hópum samtímis og ólíkum hópum yfir árið. Rekkaskátar skipuleggja líka og framkvæma einstaklingsmiðaðri dagskrá og verkefni en áður, sérstaklega þau sem vinna að forsetamerkinu. Rekkaskátar eru færir um að halda utan um eigið starf en gjarnan er einn eða fleiri eldri skátaforingi þeim til halds og trausts. Hlutverk skátaforingjans er vera skátunum til stuðnings við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og leiðbeina þeim eftir þörfum, þá reynir skátaforinginn iðulega að miðla vissri kunnáttu, fræðslu og reynslu til rekkaskátanna og hvetja þau til að reyna nýja hluti í starfinu.

Forsetamerkið

Rekkaskátar geta unnið að forsetamerkinu séu þau áhugasöm um það og tekur vegferðin að forsetamerkinu rúmlega tvö ár. Rekkaskátar sem byrja að vinna að forsetamerkinu fá úthlutað sértilgert vegabréf til að halda utan um vegferðina. Til að hljóta forsetamerkið þarf rekkaskátinn að skipuleggja og framkvæma 24 verkefni sem falla undir einhvern af fjórum verkefnaflokkum forsetamerkisins. Í hverjum verkefnaflokki þarf að ljúka einu skylduverkefni og að minnsta kosti tveimur valverkefnum.

Verkefnaflokkar

Ferðalög og alþjóðastarf
Útilífsáskoranir
Samfélagsþátttaka
Lífið og tilveran

Skylduverkefni

Þátttaka í skátamóti, sem varir 5 daga eða lengur Ferðast 45 km eða lengra, á eigin afli Helgarnámskeið í leiðtogaþjálfun Skyndihjálparnámskeið
Hver rekkaskáti þarf síðan að taka þátt í undirbúningi, framkvæmd og endurmati á tveimur stærri verkefnum sem taka 3 – 12 mánuði. Þetta getur verið viðburðahald, aðstoð með starf yngri skáta, stjórnarseta fyrir félagið eða eitthvað sem er gert utan skátastarfs. Þegar rekkaskátar hefja vegferð að forsetamerkinu lista þau upp væntingar sínar um hvaða kunnáttu og vöxt þau muni hljóta á vegferð sinni og að leiðarlokum líta þau aftur á afrek sín og ígrunda hvaða áhrif vegferðin hafði í raun á þau. Að vegferð lokinni fá rekkaskátar forsetamerkið afhent af forseta Íslands við hátíðlega athöfn að Bessastöðum og að athöfn lokinni býður forsetinn jafnan forsetamerkishöfum og gestum þeirra til kaffisamsætis þar sem þeim gefst færi á að kynnast forsetanum og starfsemi embættisins örlítið betur.

Skráning í rekkaskátana

Skátafundir rekkaskáta eru á miðvikudgöum kl. 20:00 – 22:00

Skráning fer fram hér