Skátafélagið Vífill

 

Fullorðnir í skátastarfi

Skátastarf er æskulýðsstarf en það þrífst þó ekki án aðkomu fullorðinna. Fullorðnir geta stutt við starfið á margan hátt, allt eftir áhuga og getu. Fullorðnir geta líka tekið virkan þátt og skemmt sér konunglega eins og fjölmörg dæmi eru um.

Til að halda úti góðu skátastarfi fyrir börn og unglinga þarf ábyrga og fullorðna einstaklinga sem sinna verkefnum fyrir skátafélögin til lengri og skemmri tíma. Það er alls ekki nauðsynlegt að hafa tekið þátt í skátastarfi áður til þess að geta lagt starfinu lið – öll höfum við eitthvað fram að færa sem nýtist til þess að mögulegt sé að halda úti þessu mikilvæga starfi fyrir börn og unglinga.

Starf fullorðinna skáta er mjög fjölbreytt þar sem starfið veltur alveg á skátunum sjálfum og hvernig þau vilja stunda sitt skátastarf. Margir sinna sjálfboðaliðastörfum á borð við foringjastöður og stjórnarstöður eða koma inn í tímabundin verkefni.

Einnig eru skátahópar fyrir fullorðna þar sem eldri en 26 ára hittast og þróa með sér sitt skátastarf þannig það er aldrei of seint að byrja í skátunum!

Vilt þú vera með?

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í skátastarfi eða leggja starfinu lið með einhverjum hætti ættirðu að smella á okkur línu á vifill@vifill.is.