Skátafélagið Vífill

Um félagið

Skátafélagið Vífill starfar í Garðabæ. Félagið er hluti af Bandalagi íslenskra skáta og starfar í anda skátastarfs.

Saga Vífils

Skátafélagið Vífill var stofnað á sumardaginn fyrsta árið 1967, en þá þótti tími kominn til að að færa starfið alfarið inn í ört vaxandi bæjarfélag Garðahrepp, eins og bærinn hét þá. En stofnun félagsins var í raun, rökrétt framhald, af starfi skátasveitanna sem starfað höfðu innan Skátafélagsins Hraunbúa í Hafnarfirði.

Félagið starfaði fyrst í Flataskóla, og því næst í Goðatúni 3 í húsi sem í dag hefur verið jafnað við jörðu. Tímamót urðu árið 1969, þegar félagið festi kaup á húsinu við Hraunhóla 12.
Viðbygging var reist við húsið árið 1991 og reyndist húsið í alla staði frábærlega og hýsti alla félagsstarfsemi Vífils fram til ársins 2003, þá flutti starfsemin yfir í bráðabirgða húsnæði við Kirkjulund.

Skátafélagið Vífill, Hjálparsveit skáta í Garðabæ og yfirvöld Garðabæjar tókum saman höndum og reistu nýja skátamiðstöð við Bæjarbraut árið 2005. Jötunheimar hafa verið lyftistöng fyrir skátastarf sem og hjálparsveitarstarf.

Skátafundir, varðeldar, skátamót, útilegur og dagsferðir eru dæmigerð viðfangsefni skátanna í Vífli. Á skátafundum fer fram undirbúningur fyrir hin stærri verkefni, svo sem dagsferðir og útilegur. Í ýmsum ferðum og á skátamótum gefst skátunum svo tækifæri til að reyna á þekkinguna sem þeir hafa innbyrgt á skátafundunum. Ljóst er að útilífið er einn mikilvægasti þáttur skátastarfsins og í krefjandi fjallaferðum sem stundum hafa verið farnar með aðstoð Hjálparsveitarinnar hefur margur athafnasamur unglingurinn náð réttum áttum.

Ferðir á skátamót eru gjarnan á dagskrá.

Skátafélagið Vífill hefur verið svo lánsamt að eiga eigin útileguskála í nágrenni við bæinn og hafa skálaútilegurnar verið einn af hornsteinum skátstarfsins í Garðabæ.
Auk skátafunda, útilífs og skátamóta eru ýmsir aðrir fastir liðir á dagskrá Skátafélagsins á hverju ári eins og hin sívinsælu Ævintýra- og útilífsnámskeið sem Vífill hefur verið með síðastliðin sumur.
Ekki má svo gleyma smíðavellinum, þátttöku í sumarhátíðum skóla, sumardeginum fyrsta, skeytasölu, svo nokkuð sé nefnt.

Við skátar í Garðabæ erum stoltir af því að vera hlekkur í keðju öflugs æskulýðsstarfs sem byggir hugmyndir sínar jafnt á hugmyndinni um virka þátttöku, því í skátaflokknum er hver einasti skáti mikilvægur hlekkur í starfi flokksins og félagsins.
Nú eftir að hafa verið fyrsta skátafélagið sem hefur fengið viðurkenninguna ”Fyrirmyndarfélag Bandalags íslenskra skáta” erum við auðvitað enn stoltari !

Jötunheimar

Bæjarbraut 7
210 Garðabæ

Jötunheimar voru opnaðir við hátíðlega athöfn árið 2005. Húsið er að hálfu í eigu Vífils og að hálfu í eigu Hjálpasveitar Skáta í Garðabæ (HSG). Félögin skipa húsnefnd sem að sér um sameiginlegar ákvarðanir er varða húsið.
Heimilið er 1000 fermetrar á tveimur hæðum. Á fyrstu hæð er félagsaðstaða Vífils þar sem hver sveit á sitt sveitarherbergi. 

Á annari hæð er hátíðarsalur sem hefur verið leigður út undir veislur.