Skátafélagið Vífill

Forsetamerkishafar úr Vífli

Átta rekkaskátar fá Forsetamerkið

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti 16 rekkaskátum Forsetamerkið við hátíðlega athöfn í Bessastaðakirkju laugardaginn 4. október. Átta úr þessum hópi eru skátar í skátafélaginu Vífli í Garðabæ.

„Að fá Forsetamerkið er lokatakmark skátastarfs Rekkaskátans og leiðin þangað er gefandi, þroskandi og skemmtileg fyrir rekkaskátann. Skátastarf rekkaskáta er fjölbreytt og þar reynir á mismunandi þroskasvið skátans og hann er stöðugt að kanna ný svið og vinna að persónulegum áskorunum“, segir Ingibjörg Hannesdóttir, fræðslustjóri Bandalags íslenskra skáta. Hjálpsemi og fjölbreytt samfélagsverkefni eru mikilvægur hluti skátastarfs Rekkaskátans, en vinnan að Forsetamerkinu tekur tvö ár hið minnsta.

„Rekkaskátarnir skrá vegferð sína í ferilskráningarbók/dagbók. Form bókarinnar er frjálst og við hvetjum þau til fjölbreytilegrar útfærslu“, segir Ingibjörg.  „Auk hefðbundinna bókaskrifa má nota ljósmyndir, kvikmyndir, bloggfærslur, dagbókarfærslur, ljóð eða myndverk. Framsetningin þarf þó alltaf að vera skýr og lýsa skátastarfi rekkaskátans, upplifun hans og sjálfsmati vel. Bókinni skila þau svo inn þegar þeir sækja um að fá Forsetamerkið afhent og það er mjög skemmtilegt að fara yfir bækurnar og sjá með eigin augum hvað skátastarfið er ótrúlega fjölbreytt.

Eftir athöfnina í dag hafa 1337 dróttskátar og rekkaskátar hlotið Forsetamerkið frá því það var fyrst afhent árið 1965.Forsetamerkishafarnir úr Vífli eru:

  1. Arnar Páll Jóhannsson
  2. Fanndís Eva Friðriksdóttir
  3. Halldór Fannar Sveinsson
  4. Hjördís Þóra Elíasdóttir
  5. Jón Egill Hafsteinsson
  6. Kristín Ósk Sævarsdóttir
  7. Sigurður Óli Traustason
  8. Urður Björg Gísladóttir
    Sveitarforingjar Rekkaskáta eru Atli Bachmann og Ólafur Patrick Ólafsson.