Skátafélagið Vífill

50 ára afmæli

50 ára afmæli Vífils var fagnað á sumardaginn fyrsta með hefðbundnum hætti og hátíðlegum blæ. Í skátamessu flutt ávörp Ágúst Þorsteinsson heiðursfélagi og Guðbjörg Lilja Sveinsdóttir skátaforingi. Skrúðagangan lagði af stað í hríðarbil og var gengið að Hofsstaðaskóla þar sem blásarasveitin lék nokkur lög. Bjarni töframaður skemmti gestum og nemendur úr 5. og 6. bekk í Sjálandsskóla fluttu atriði úr Bláa hnettinum. Ýmis leiktæki voru í boði og þrátt fyrir hryssingslegt veður skemmtu allir sér vel. Kaffisalan inni í skólanum var vel sótt og þar svignuðu borðin undan kræsingum. Að framkvæmd hátíðahaldanna komu margir. Skátar, foringjar, foreldrar, stjórn og bakland félagsins. Allir lögðust á eitt og að loknum frágangi voru grillaðir s.k. Binnaborgarar sem runnu ljúflega niður. Dróttskátar á leið til Noregs seldu Candýflos og gekk það vel. Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn.