­

About Björn Hilmarsson

This author has not yet filled in any details.
So far Björn Hilmarsson has created 18 blog entries.

Aðalfundur Vífils

Aðalfundur Vífils var haldinn fimmtudaginn 21. febrúar sl. Fundurinn var vel sóttur og mætti m.a. varaskátahöfðingi fyrir hönd BÍS og formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar. Dagskrá fundarins var með hefðbundnum hætti, fluttar skýrslur, ársreikingar og starfsáætlun næsta starfsárs yfirfarin. Árskýrsluna má lesa hér. Breytingar urðu á forystu félagsins. Thelma Rún van Erven tók við sem félagsforingi. Nýliðar í stjórn eru Guðbjörg Lilja Sveinsdóttir og Ólafur Patrick Ólafsson. Stjórnin er skipuð eftirfarandi: Thelma Rún van Erven félagsforingi, Gísli Örn Bragason aðstoðarfélagsforingi, Guðbjörg Þórðardóttir gjaldkeri, Dögg Gísladóttir, Guðbjörg Lilja Sveinsdóttir, Ólafur Patrick Ólafsson og Unnur Flygenring.

Jólakveðja

Gleðilega hátíð og farsælt komandi skátaár. Þökkum ánægjulegt samstarf og góð kynni á árinu sem er að líða.

Fjölskyldudagur Vífils 9.9.2018

Skátafélagið Vífill býður til fjölskyldudags sunnudaginn 9. september í Jötunheimum. Allir eru velkomnir á opið hús frá klukkan 13.00-16.00 þar sem skátastarfið verður kynnt. Hægt verður að prófa kassaklifur, ýmsar skátaþrautir og útieldun. Einnig verður boðið upp á kaffi, kakó og kleinur. Skátaforingjar Vífils verða á svæðinu og geta svarað öllum spurningum um skátastarfið. Skátafundir hefjast í vikunni 10.-14. september og eru fundartímar eftirfarandi ; Drekaskátar (7-9 ára). Þriðjudagar kl. 17:00-18:30 Fálkaskátar (10-12 ára). Miðvikudagar kl. 17:00-19:00 Dróttskátar (13-15 ára). Mánudagar kl. 20:00-22:00 Rekkaskátar (16-18 ára). Fimmtudagar kl. 20:00-22:00 Við hlökkum til að sjá ykkur! Með skátakveðju, Stjórn og foringjar Vífils    

Hreinsunarvika Vífils

Nú er í tísku að fara út og „plokka“ þ.e. týna upp rusl í umhverfinu. Við í Vífli erum engir eftirbátar í því. Í tilefni sumarkomunnar og hreinsunarátaks í Garðabæ ætlum við að taka til hendinni við Jötunheima og nánasta umhverfi. Hver sveit hreinsar ákveðið svæði á skátafundi vikuna 24. – 30. apríl. Foreldrar dreka- fálka- og dróttskáta eru beðnir um að koma með skátunum sínum á fundina og taka þátt í hreinsuninni. Baklandsliðar og aðrir velunnarar eru einnig innilega velkomnir. Gott er að taka með sér vinnuvettlinga og ef þið hafið tök á einföld garðverkfæri. Mikilvægt er að flokka plast frá öðrum úrgangi og halda því sér. Að verki loknu verða grillaðar pylsur og bráðvantar okkur foreldra til þess að aðstoða við það. Skáti er náttúruvinur og því er þátttaka í hreinsunardeginum skylduverkefni allra sveita og flokka! Hlökkum til að sjá þig og fjölskylduna Með kveðju Stjórn Vífils

Skátaþing 2018

Skátaþing fer fram dagana 6. - 7. apríl 2018 í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Á skátaþingi sitja fulltrúar allra skátafélaga á landinu auk annarra gesta. Stjórn bandalags íslenskra skáta flytur skýrslu sína og starfsáætlun. Kosið er í embætti og rætt um ýmis mál er varða skátastarf í landinu. Vífill á þrjá fulltrúa í stjórn BÍS og ráðum. Jón Egill Hafsteinsson er verðandi formaður Upplýsingaráðs, Huldar Hlynsson tekur sæti í Ungmennaráði og Ólafur Patrick Ólafsson situr í Upplýsingaráði. Þeim er óskað velfarnaðar í starfi og óskað til hamingju.

Sumardagurinn fyrsti

Sumardeginum fyrsta verður fagnað fimmtudaginn 19. apríl n.k. Hátíðarhöldin verða í umsjá skátafélagsins Vífils eins og venja er. Dagskráin verður með hefðbundu sniði og hefst með skátamessu í Vídalínskirkju kl. 13.00. Skrúðgangan hefst kl. 14.00 og verður gengið að Hofsstaðaskóla. Þar mun Blásarasveit tónlistarskólans leika nokkur lög. Rappararnir Jói P og Króli skemmta gestum sem geta að því loknu skemmt sér í hoppuköstulum og leiktækjum. Sjoppa verður á staðnum og selt Candy flos. Kaffihlaðborð skátafélagsins verður á sínum stað, glæsilegt að vanda.

Kynning á World Jamboree 2019

Mánudaginn 5. mars kl. 19.30. Verður haldinn kynningarfundur um alheimsmót skáta, World Jamboree sem halfið verður í Virgínufylki í Bandaríkjunum sumarið 2019. Jóhanna Björg og Ásgeir fararstjórar fyrir Íslands hönd kynna mótið og veita allar upplýsingar. Fundurinn er ætlaður skátum og foreldrum þeirra. Þeir skátar sem fæddir eru á bilinu 22. júní 2001 og 21. júlí 2005 geta orðið þátttakendur en eldri skátar geta tekið þátt sem starfsmenn. Á vefsíðunni: http://www.skatamal.is/althjodastarf-3/wsj19/  má fræðast nánar um mótið.

Ársskýrsla Vífils 2017

Á aðalfundi Vífils sem fram fór miðvikudaginn 28. febrúar var ársskýrsla ársins 2017 samþykkt.  Í skýrslunni er gerð grein fyrir starfsemi félagsins á liðnu ári. Hver skátasveit segir frá starfi sínu og raktir eru helstu viðburðir í n.k. dagbókarformi. Birtar eru fjöldatölur og fjallað um sumarnámskeiðin. Skýrsluna prýða myndir úr starfinu. Ársskýrsla Vífils 2017

Aðalfundur 2018

Aðalfundur skátafélagsins Vífils verður haldinn miðvikudaginn 28. febrúar n.k. kl. 20.00. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf ásamt almennum umræðum um starfið. Allir velkomnir á fundinn.

Öflugir leiðtogar

Skátafélagið Vífill á alltaf öfluga þátttakendur á Gilwellnámskeiðunum. Gilwell er æðsta leiðtogaþjálfun innan skátahreyfingarinnar. Þessir luku þjálfun og fengu einkennin sín á dögunum, brúnan klút, hnút og tvær s.k. skógarperlur.