Marta Magnúsdóttir var í dag kjörin skátahöfðingi Bandalags íslenskra skáta til tveggja ára á skátaþingi sem fer fram á Akureyri um helgina. Marta sigraði með 43 atkvæðum en Ólafur Proppé, sem var einnig í framboði til skátahöfðingja, hlaut 35 atkvæði. Alls greiddu 81 atkvæði og voru þrír seðlar auðir. Marta er yngsti skátahöfðingi BÍS frá upphafi.
Nýr aðstoðarskátahöfðingi og formaður félagaráðs til þriggja ára er Dagmar Ólafsdóttir. Í embætti formanns fjármálaráðs var Anna Gunnhildur Sverrisdóttir kjörin til tveggja ára. Þá var Jakob Guðnason kjörinn formaður upplýsingaráðs til þriggja ára. Sjálfkjörin voru Jón Þór Gunnarsson sem formaður alþjóðaráðs til eins árs, Harpa Ósk Valgeirsdóttir sem formaður dagskrárráðs til eins árs, Björk Norðdahl sem formaður fræðsluráðs til eins árs og Berglind Lilja Björnsdóttir sem formaður ungmennaráðs til þriggja ára. Nýja stjórnin samanstendur því af sex konum og tveimur körlum.