Skátafélagið Vífill

Vífill gegn einelti

Foringjar fræðast um mikilvæg málefni

Í skátafélaginu Vífli er lögð áhersla á að foringjar séu vel undirbúnir undir starf sitt og eigi kost á námskeiðum sem efla þá. Á foringjaráðsfundi í október sl. fengu þeir kynningu á eineltisáætluninni Gegn einelti í Garðabæ. Áætlunin hefur verið í notkun í grunnskólum bæjarins um langt árabil og geta æskulýðs- og tómstundafélög nýtt sér hana í sínu starfi. Skátafélagið hefur einnig sett sér eineltisstefnu og verður hún endurskoðuð og samræmd Gegn einelti í Garðabæ.
Innan skátahreyfingarinnar er unnið eftir sérstakri viðbragðsáætlun og sérútbúnu efni m.a. verkefnum sem vinna gegn einelti. Í kynningunni var fjallað um helstu einkenni og birtingarmyndir eineltis ásamt atriðum sem mikilvæg eru til þess að fyrirbyggja einelti og draga úr því. Einnig var rætt um hvernig á að bregðast við ef grunur um einelti vaknar. –
Foringjar sækja einnig námskeiðið Verndum þau sem er á vegum Æskulýðsvettvangsins og fjallar um tilkynningarskyldu þeirra sem starfa með börnum og unglingum, líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi og vanrækslu hverskonar ásmat úrræðum sem eru í samfélaginu fyrir börn og unglinga sem eru þolendur ofbeldis. Í skátastarfi í Vífli er grundvallaratriði að samstaða og vingjarnlegt andrúmsloft sé ríkjandi. Að allir komi vel fram við alla, sýni virðingu og umburðarlyndi. Ef samskiptavandi kemur upp þá er tekið á honum strax og ætíð gerð athugasemd við meiðandi ummæli eða atferli í garð annarra. Einelti og neikvæð samskipti verða ekki liðin í skátafélaginu Vífli.

 

20141007_193820 20141007_193830