Skátafélagið Vífill

Afmælisútilega Vífils

Um liðna helgi fóru vaskir skátar úr skátafélaginu Vífli í árlega félagsútilegu. Að þessu sinni var dvalið í skála í Bláfjöllum. Yngstu skátarnir, drekaskátar, komu í dagsferð en aðrir aldurshópar gistu tvær nætur. Þema útilegunnar var afmæli enda fagnar félagið 50 ára afmæli sínu á þessu ári.

Dagskrá útilegunnar var mjög fjölbreytt og fór fram bæði úti og inni enda lék veðrið við skátana okkar. Farið var í hellaskoðun í Langahelli og gönguferðir upp á fjall. Poppað og bakað brauð yfir opnum eldi. Inni var m.a. boðið upp á hnútakennslu, vinabandagerð, afmælisskreytingar auk þess sem Radíóskátar voru með einn póstinn og fengu skátarnir að spreyta sig á því að lóða með lóðbolta og búa til alls kyns fígúrur. Boðið var upp á afmælistertu og hamborgaraveislu enda um alvöru afmæli að ræða. Allar sveitir æfðu og fluttu skemmtiatriði fyrir kvöldvöku og að henni lokinni tók við æsispennandi næturleikur í svarta myrkri. Skátarnir voru vel búnir með ný höfuðljós sem félagið fékk í afmælisgjöf. Á laugardagskvöldinu gafst einstakt tækifæri til stjörnuskoðunar og Norðurljósin skörtuðu sínu fegursta.

Útilegan var í alla staði mjög vel heppnuð og komu margir eldri skátar í heimsókn og aðstoðuðu við hin ýmsu verkefni. Í skátunum geta allir fengið verkefni við sitt hæfi. Félagið þakkar skátunum fyrir ánægjulega samveru og baklandinu fyrir frábæra aðstoð. Þess má geta að áhugsömum krökkum á öllum aldri og fullorðnum er velkomið að koma í heimsókn í skátaheimilið og prófa að mæta á tvo til þrjá fundi. Framundan eru margir skemmtilegir viðburðir innanlands sem utan. Nánari upplýsingar er að finna á www.vifill.is.

Skátakveðja
Hafdís Bára Kristmundsdóttir
félagsforingi