­

About Hervald 2908902929

This author has not yet filled in any details.
So far Hervald 2908902929 has created 5 blog entries.

Vífill fer sko ekki í sumarfrí

Þó "hefðbundið" skátastarf sé komið í nokkurs konar sumarfrí þýðir það alls ekki að Víflar slaki á. Útilífsskóli Vífils er að sjálfsögðu á sínum stað og er viku 4 að ljúka núna. Það þýðir að þrjár vikur séu eftir af útilífsskólanum og gerum við sterklega ráð fyrir því að fullt verði á öll námskeið sumarsins - að minnsta kosti hefur það verið raunin síðastliðnar fjórar vikur. Því hvetjum við þá sem hafa áhuga á að skrá sig til að gera það sem fyrst. Nánari upplýsingar um námskeiðin má finna hér. Svo er loks komið að Landsmóti skáta 2016 sem haldið verður á Úlfljótsvatni dagana 17.-24. júlí. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar sem snúa að þátttöku Vífils með því að senda okkur tölvupóst á vifill@vifill.is eða með því að hringja í okkur í síma 899-0089.

Útilífsskóli Vífils 2016

Þá hefur skráning á sumarnámskeið Vífils hafist. Námskeiðin verða að sjálfsögðu á sínum stað þetta sumarið og geta allir krakkar á aldrinum 7-12 ára valið á milli ævintýra- og smíðanámskeiða. Valið getur þó verið erfitt og er bókstaflega ekkert því til fyrirstöðu að krakkar mæti á bæði námskeiðin. Við hvetjum þó alla til að gera hug sinn upp sem fyrst þar sem ásókn í námskeiðin hefur aukist frá ári til árs og því hægt að gera ráð fyrir sömu vinsældum í ár. Hervald Rúnar og Thelma Rún munu sjá um útilífsskólann í ár og er hægt að nálgast allar frekari upplýsingar hjá þeim á sumar@vifill.is, eða á vefsvæði sumarnámskeiðana. Sumarnámskeið Vífils 2016

Fimmtudagssveit fálkaskáta hreiðrar um sig

Fálkasveit fimmtudaga ákvað að taka sitt herbergi í Jötunheimum í gegn og hanna það algjörlega eftir sínu höfði. Síðasta fimmtudag var því unnið hörðum höndum með pensli og sköpunargáfunni og var niðurstaðan ekki af verri endanum. Í kjölfarið var farið með húsgögn í góða hirðinn og má því segja að framkvæmdirnar marki nýtt upphaf hjá fálkunum. Á næstunni verður síðan farið í að finna húsgögn og fleira fyrir herbergið til að leggja lokahönd á sköpunarverkið. Spennandi tímar framundan hér á bæ.  

Skráning á Landsmót 2016; skráningargjöld hækka á næstunni

Við viljum minna alla Vífla á að 15. febrúar hækka skráningargjald á Landsmót um 5%. Nú fer því hver að verða síðastur að skrá sig á www.landsmot.is áður en verðið hækkar. Við viljum einnig benda á að hægt er að skipta skráningargjaldinu upp í fleiri en eina greiðslu. Hægt er að nálgast upplýsingar um fyrirkomulagið á vefsíðu Landsmóts. Undanfarin ár hefur engin vöntun verið á Víflum á Landsmótum og ætlum við svo sannarlega ekki að taka upp á því að láta það gerast núna. Allar frekari upplýsingar um mótið má nálgast inná www.landsmot.is. Ef einhver spurningar varðandi þátttöku Vífils vakna þá hvetjum við ykkur eindregið til að senda okkur póst á www.vifill.is.

Kynning á landsmóti haldin í Jötunheimum

Heil og sæl Nú er komið að enn einu Landsmótinu og að sjálfsögðu láta Víflar sig ekki vanta. Landsmót skáta 2016 verður haldið við Úlfljótsvatn dagana 17. -  24. júlí. Landsmót Skáta er eitt stærsta skátamót sem haldið er á Íslandi og verður haldið í 29. skiptið. Þema mótsins að þessu sinni er Leiðangurinn mikli. Mótið er fyrir alla skáta á aldrinum 10-22 ára. Einnig verða fjölskyldubúðir þar sem allir eru velkomnir. Þátttökugjald Landsmóts skáta 2016 er 54.000 krónur. Innifalið í mótsgjaldinu er fullt fæði allan tímann, dagskrá, ofið mótsmerki, mótsbók, einkenni mótsins, mótsblað og allur undirbúningur og aðbúnaður á mótsstað. Boðið verður uppá að skipta greiðslum mánaðarlega með greiðsluseðli eða á greiðslukort. Greiðslum þarf að vera lokið fyrir 1. júní.  Næstkomandi miðvikudag, þann 27. janúar, ætlar mótsstjórn að mæta til okkar í Jötunheima klukkan 20:00 og hafa kynningu á mótinu. Við hvetjum alla til að mæta sem hafa áhuga á að kynna sér mótið nánar. Heitt verður á könnunni og við vonumst til að sjá sem flesta. Fyrir utan upplýsingar á fundinum má finna allar helstu upplýsingar varðandi mótið á heimasíðu þess; www.skatamot.is