Skátafélagið Vífill

Víflar á heimsmót skáta í Japan

Glæsilegur hópur af Víflum lagði af stað í langt ferðalag á alheimsmóti skáta í Japan þann 24. júlí síðastliðinn. Ferðalagið á mótssvæðið tók c.a. 35 klukkustundir og var hópurinn því mjög þreyttur þegar við loks komumst á leiðarenda. Fyrstu tveir dagarnir fóru að mestu í það að kynna sér svæðið og venjast hitanum hér á svæðinu sem hefur verið talsvert hærri en við þekkjum heima á Íslandi, eða um og yfir 40 gráðu hiti og mikill raki.

Á mótinu eru samankomnir um 33.000 þátttakendur frá 144 löndum og hafa Víflarnir því fengið að kynnast jafnöldrum frá hinum ýmsu löndum og er frábært að sjá hvað allir eru góðir vinir hér þrátt fyrir mjög ólíka menningarheima og bakgrunn.

Þátttakendur hafa farið í fjölbreytta dagskrá t.a.m. vatnadagskrá, náttúruskoðun, vísindaþorp þar sem þau meðal annars hafa kynnst tækninýjungum frá Toyota, Canon, Honda og ýmsum fleiri fyrirtækjum, enda eru japanir þekktir fyrir hinar ýmsu uppfinningar. Einnig hafa þau fengið að kynnast menningu Japana með því að heimsækja grunnskóla og fyrirtæki í nálægum bæjarfélögum. Það sem stendur þó einna mest upp úr er heimsóknin til Hiroshima sem farin var til að skoða safn þar sem sjá mátti minjar frá hinni hörmulegu árás sem gerð var á borgina fyrir akkurat 70 árum síðan þann 6. ágúst 1945 kl. 8.15. Í morgun var mínútu þögn hér á mótssvæðinu til að votta fórnarlömbum árásanna virðingu okkar.

Nú fer mótinu að ljúka og halda þátttakendur þá til Yokohama sýslu þar sem þau munu fara í heima gistingu á japönskum heimilum í tvær nætur. Eftir það munum við ferðast m.a. að fjallinu Mount Fuji og að lokum verður farið til Tókýó þar sem við munum eyða síðustu dögunum okkar.

Sajonara

Japansfararnir